Staðsetning

Gistihúsið á Narfastöðum er staðsett við þjóðveg nr. 1., fimm km. fyrir sunnan þéttbýlið á Laugum. Til Akureyrar eru 60 km, til Húsavíkur 40 km og 35 km. eru að Reykjahlíð við Mývatn. Gistihúsið á Narfastöðum er miðsvæðis milli helstu náttúruperla Norð-Austurlands og má þar nefna Vaglaskóg, Aldeyjarfoss og Goðafoss í Skjálfandafljóti, Mývatn, Kröflu, Þeystareiki, Jökulsárgljúfur, Dettifoss, Ásbyrgi, Tjörnes og fl. Staðsetningin er einnig hentug til ferðalaga inn á Hálendið s.s. Sprengisandsleið um Bárðardal eða inn að Öskju, Herðubreiðarlindum, Herðubreið eða Kverkfjöllum. Þá er stutt í mörg athygliverð söfn s.s. byggðasafnið á Grenjaðarstað, Samgönguminjasafnið á Ysta-Felli í Kinn, Safnahúsið á Húsavík og Hvalasafnið og hvalaskoðun á Skjálfanda er aðeins í 40 km. fjarlægð. Á Laugum (5 km) er að finna helstu þjónustu s.s. litla verslun og veitingastað, dekkja- og bifreiðaverkstæði, banka, pósthús og glæsilega útisundlaug sem tekin var í notkun 2005. Á Laugum er einnig frábær frjálsíþróttaaðstaða og þar var unglingalandsmót UMFÍ haldið í samvinnu við HSÞ sumarið 2006.

 

Narfastaðir-kort